Færsluflokkur: Bloggar

Grænn Sjálfstæðisflokkur.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hófst í dag og Geir H. Haarde formaður flokksins hélt mikla ræðu. Það er greinilegt að Geir og Sjálfstæðisflokkurinn lítur ekki á Samfylkinguna sem sinn höfuðandstæðing í stjórnmálum á Íslandi. Nú er það Steingrímur J. og VG sem þeir líta sem sinn helsta keppinaut. Ekki minnst hann á Ingibjörgu Sólrúnu og greinilegt að Samfylkingin er ekki metin sem merkilegur keppinautur.  Mér fannst Geir undirstrika það hvernig Samfylkingunni undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar hefur mistekist herfilega í þeirri ætlun sinni að vera öflugt mótvægi við Sjálfstæðisflokkin. Og minni ég á umræðuna um turnana tvo í íslenskum stjórnmálum.

Einnig var áberandi hvað formaðurinn reynir að draga grænan lit á flokkinn og stefnu hans. Greinilega á það að vera andsvar við straum kjósanda til VG og einnig tilhneigng til að koma í veg fyrir að hægri grænir sjálfstæðismenn streymi til fylgis við Ómar Ragnarsson og félaga í Íslandshreyfingunni.

Það verður spennandi að fylgjast með hvað kemur út úr þessum mikla fundi þeirra.


Ætlum að virkja í þágu íbúa.

Ég hlustaði á viðtal við Katrínu Jakobsdóttur varaformann VG í þætti á Útvarpi Sögu í dag þar sem rætt var um nýtt plagg þeirra sem ber heitið Græn framtíð.

Í viðtalinu tók hún sérstaklega fram að þau hjá VG væru á móti því að virkjað yrði meira á Íslandi í þágu stóriðju, og þar af leiðandi ekki virkjað á Þeystareykjum fyrir fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík. Ég verð að benda þessum félögum mínum í VG á eftirfarandi. Það var örugglega ekki ætlunin hjá fyrrverandi bæjarfulltrúum VG í bæjarstjórn Húsavíkurbæjar að virkja á Þeystarreykja í þágu einhverra annar en íbúa hér á svæðinu og til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Það er sérkennileg staða að standa frammi fyrir því sem sveitarstjórnarmaður að sami stjórnmálaflokkur og stóð að því að setja verkefnið af stað um uppbyggingu stóriðju á Bakka. Ætlar nú að slá það af og líklega ætla þau að láta sveitarfélagið og orkufyrirtækin sitja uppi með þann kostnað sem fallin er til vegna verkefnisins.  

Einnig man ég ekki eftir því að Steingrímur J. Sigfússon formaður VG hafi lagt það til við sveitarstjórnina hér að hún hætti við þessi áform, hvorki núverandi sveitarstjórn né fyrrverandi sveitarstjórn sem Vinstri grænir áttu aðild að meirihlutanum. 

 


Eigum við að segja stopp við fjölgun ferðamanna?

Það er sérkennilegt að hlusta á umræðurnar um mikilvægi þess að draga úr þenslu í landinu. Eitt það fyrsta sem Vinstri Grænum, Samfylkingunni og Íslandshreyfingunni dettur í hug til að slá á þensluna, er að stöðva og drepa niður frumkvæði og áform heimamanna hér á Húsavík og nágrenni um uppbyggingu á umhverfisvænni stóriðju á Bakka við Húsavík. Ég hef ekki orðið var við neina þenslu hér á þessu svæði sem þarf að ná niður nema síður sé. Ég held að allir stjórnmálaflokkar ættu að beita sér fyrir því að slá á þenslu á þeim svæðum þar sem hún er. Frekar en að berjast gegn frumkvæði heimamanna og draga úr þeim kjarkinn í þeirri viðleitni sinni að treysta búsetuskilyrði á sínu landsvæði til framtíðar.

Ein leiðin til að draga úr þenslu gæti verið að draga úr fjölgun ferðamanna sem koma hér til landsins. Eða segja bara stopp við fjölgun ferðamanna í ein fimm ár eða svo.  Þessi fimm ár gætum við einbeitt okkur að því að ná fleiri krónum út úr hverjum þeim ferðamanni sem hingað vogaði sér að koma.

Með þessari aðferð sláum við tvær flugur í einu höggi. Eftirspurn eftir áli mun dragast saman og því ólíklegra að þörf verði fyrir fleiri álver í heiminum. Sérstaklega ef öll lönd í heiminum færi að fordæmi okkar og settu stopp á ferðamannstraum og segðu allri þeirri mengun og umhverfisspjöllum sem þessum iðnaði fygldi stríð á hendur. Einnig munum við hlífa hinni stórkostlegu íslenskri náttúru við þessum mikla ágangi og mengun sem ferðarmönnum fylgir. 

Nei, nei við höfum val. Áfram árangur og ekkert stopp og settu x við B


Næsta ríkistjórn Sjálfstæðisflokkur og VG

Sjálfstæðismenn munu nota landsfundinn um næstu helgi til að móta stefnu sína þannig að auðvelt verði fyrir þá að mynda nýja ríkistjórn með VG. Í drögum að ályktum fyrir landsfundinn segir eftirfarandi. Vegna þenslu er mikilvægt að hægja ferðina í virkjunarmálum og nauðsynlegt að klára rammaáætlun um virkjanakosti. Ekki er ástæða til að ríkisvaldið beiti sér fyrir frekar fyrir uppbyggingu stóriðju. Þetta þýðir á mannamáli STOPP.  Með samþykkt á ályktun eins og þessari er flokkurinn að segja það að ríkið sem eigandi af Landsvirkjum muni ekki beita fyritækinu til frekari uppbyggingar í stóriðju. Það er greinilegt að þessu ætlar flokkurinn að sýna VG það að hann er allveg tilbúinn að versla með stóriðjumálin. Um þetta hafa líklega Steingrímur J. og Geir samið á leynifundinum fræga um daginn.

Ætlum við kjósendur virkilega að kjósa yfir okkur hreinræktaða íhalds- og afturhaldsstjórn til að fara með stjórn í þessu landi næstu fjögur árin. Ég vona að við berum gæfu til að sú staða komi ekki upp eftir kosningar að þessi möguleiki verði fyrir hendi.

 


Temjum við okkur lífsstíl hófsemdar og hógværðar?

Biskupinn yfir Íslandi sagði í ræðu sinni í dag að við Íslendingar verði að líta í eigin barm og endurmeta lífstíl ágengni og sóunnar og temja okkur lífsstíl hófsemdar og hógværðar. Áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi velsæld, mátt hins hrausta og sterka og stælta, er tál.

Þessi orð eru í tíma töluð hjá biskupinum og ættum við að taka þessi orð alvarlega. Samt held ég að íbúar höfuðborgarsvæðins ættu sérstaklega að taka þessi orð til sín. Ég fullyrði að ágirni og græðgi á því svæði sé miklu meiri en á öðrum svæðum á landinu. Það þarf ekki annað en að horfa í kringum sig á þessu mesta velsældar, vesældar og þenslusvæðis landsins til að sjá hvað þar er í gangi. Þarna er lifað hratt og hátt í mikilli einkaneyslu, sóun og græðgi. Fólk virðist vera jafnt og þétt að fjarlægjast hin gömlu og góðu gildi um jöfnuð og félagshyggju.

Við í sveitarstjórnin hér í Norðurþingi stefnum á að sveitarfélagið okkar verði sjálfbært og hafi burði til að veita öllum íbúum sínum þjónustu eins og best gerist á landinu. Markmiðið er að sveitarfélagið Norðurþing verði álitlegur kostur til búsetu fyrir unga og gamla um langa framtíð.


Ljótu hálfvitarnir

Í gærkvöldi fór ég á allveg frábæra skemmtun í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Þarna voru á ferð miklir snillingar sem kalla sig Ljótu hálfvitana. Allir eru þessir snillingar uppaldir í sveitarfélaginu Norðurþingi ( flestir á Húsavík) fyrir utan einn sem er uppalin í Aðaldal. Þarna stóðu þeir á sviði í rúma þrjá klukkutíma og gerðu grín að sjálfum sér og öðrum af mikilli innlifun og metnaði. Áheyrendur velltust um af hlátri og sumir áttu fullt í fangi með að tolla á stólunum sínum.  Það var allveg greinilegt að allir gestir samkomunar fóru ánægðir heim eftir þessa stórkostlegu tónleika og leiksýningu.

Endilega þið sem lesið þetta og sjáið Ljótu hálfvitana auglýsta með samkomu, reynið endilega að komast. Þessi sýning er hverrar krónu virði, því lofa ég.

Ég tel að mér sem forseta sveitarstjórnar Norðurþings beri skilda til að þakka Ljótu hálfvitunum fyrir mig og mína.

Takk Toggi, takk Ármann, takk Sævar, takk Aggi, takk Eggert, takk Snæbjörn, takk Baldur, takk Guðmundur og síðast en ekki síst takk Oddur Bjarni.

Næstu tónleikar Ljótu hálfvitanna eru á Gamla Bauk á Húsavík í kvöld, endilega mætið.


Píslagangan

Jæja, þá er Föstudagurinn langi runnin upp. Fallegt veður hér á Húsavík, stillt og svalt. Erum að leggja af stað upp í Mývatnssveit til að taka þátt í Píslagöngunni sem hefur verið árlegur viðburður hjá fjölskyldu minni undanfarin ár.

Píslagnagan er 36 kílómetra ganga umhverfis Mývatn, öll gangan er gengin á malbiki og reynir því mikið á göngumenn sem ganga allan hringinn.

Upphaf þessara göngu var að fjórir mývetningar gengu umhverfis vatnið á Föstudaginn langa fyrir ca. 15 árum. Síðan hefur þátttakendum fjölgað jafnt og þétt og verða líklega vel á þriðja hurdraðið í dag. Sýnir vel hvað lítið þarf til að draga að ferðamenn að og búa til stóran árlegan viðburð.

Uppskrift að góðum Föstudegi langa er að ganga heilan eða hálfan hring umhverfis Mývatn. Fá sér síðan stóran kaldan bjór í Gamla bænum á eftir, engin bjór betri en þessi sem tekin er eftir góðan göngutúr. Skella sér síðan í Jarðböðin í Mývarnssveit til að mýkja þreytta vöðva og slappa af. Og borða síðan góða lambasteik með grænum baunum of sultu og fl. í kvöldmat.

Vonandi verða blöðrunar með færra móti í ár.

 


Var útkallið til New York hneyksli aldarinnar??

Stöð tvö sýndi kosningarþátt úr Norðausturkjördæminu þann 4. aprí s.l. Þar kom fram að Steingrímur J. Sigfússon formaður VG hafði kallað það hneyksli aldarinnar þegar Valgerður Sverrisdóttur þá Iðnaðarráðherra skrifaði undir viljayfirlýsingu um mat á hagkvæmi þess að byggja álverksmiðju á Bakka við Húsavík.

Þetta samkomulag var gert á milli Húsavíkurbæjar, Alcoa og ríkistjórnar Íslands en hvataaðilinn að þessu verkefni var bæjarstjórn Húsavíkurbæjar og fyrirtæki tengd sveitarfélaginu.

Mikið var lagt að Valgerði Sverrisdóttur þá Iðnaðarráðherra að vinna að þessu verkefni að krafti með heimamönnum. Merkilegast er að þeir sem lögðu harðast að henni og gerðu mestar kröfur voru bæjarfulltrúar vinstri grænna í bæjarstjórn Húsavíkurbæjar. Á sama tíma kallar Steingrímur J. Sigfússon samkomulagið hneyksli aldarinnar. 

Ég staðfesti það hér og nú að Valgerður Sverrisdóttir var að ganga erinda allra bæjarstjórnar Húsavíkurbæjar og þar með talið fulltrúum vinstri grænna í bæjarstjórninni í þessu máli.

Útkallið til New York var ekkert hneyksli, heldur var um mikilvægan áfanga að ræða í að tryggja íbúum í Þingeyjasýslum öflugt atvinnulíf og stór áfangi í að snúa við neikvæðri íbúaþróunn á svæðinu.

 


Bloggsíðan mín!

Jæja, þá er ég búinn að útbúa mér bloggsíðu hér á mbl.is. Hugmynd mín með með þessari bloggsíðu er að taka þátt í þeirri miklu umræðu og skoðanskiptum sem hér eiga sér stað. Ásamt því að koma mínum skoðunum og sjónarmiðum á framfæri við lesendur.

En hver er bloggarinn?

Ég heiti Gunnlaugur Stefánsson og er búsettur á Húsavík. Ég er menntaður hússmíðameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík og starfa sem framkvæmdastjóri Sagarinnar ehf ( www.golflistar.is ) Einnig er ég forseti sveitarstjórnar í sveitarfélaginu Norðurþing ( www.nordurthing.is ) . Ég sit fyrir hönd sveitarfélagsins í fjölmörgum stjórnum, ráðum og nefndum bæði innan stjórnsýslu sveitarfélagsins og utan hennar.

Konan mín heitir Dóra Ármannsdóttir og starfar sem framhaldsskólakennari við Framhaldsskólann á Húsavík. Hún er núna í námsleyfi og er í framhaldsnámi við Háskólann á Akureyri í menntunarfræðum.

Synir okkar eru fjórir og heita Andri Birgisson 24 ára háskólanemi, Stefán Breiðfjörð Gunnlaugsson 22 ára framhaldsskólanemi, Ármann Örn Gunnlaugsson 15 ára og Patrekur Gunnlaugsson 11 ára nemendur við Borgarhólsskóla á Húsavík og Tónlistaskólann á Húsavík.

Áhugamál mín eru fjölmörg en þau helstu eru. Fjölskyldan, stjórnmál, skógrækt, golf, stangveiði, ferðarlög og viðskipti. 

Læt þetta duga um mig og mína.

 

 


Um bloggið

Gunnlaugur Stefánsson

Höfundur

Gunnlaugur Stefánsson
Gunnlaugur Stefánsson

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndir

  • ...savikurhofn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband